Unai Emery, stjóri Aston Villa, vill að hans leikmenn passi sig á að fara ekki fram úr sér þó svo að vel hafi gengið undanfarið.
Spánverjinn sneri gengi Villa við eftir að hann tók við af Steven Gerrard. Liðið er nú í sjötta sæti, aðeins 6 stigum frá Meistaradeildarsæti þegar fimm umferðir eru eftir.
„Markmiðin sem ég setti mér eru tvenn: Að vinna bikar með Villa og koma liðinu í Evrópukeppni,“ segir Emery.
Þessi fyrrum stjóri Arsenal bendir þó á að ekkert sé í höfn enn þá. „Við höfum verið að bæta okkur en við förum varlega.
Við höfum gert vel en erfiðasti kaflinn er framundan.“
Villa heimsækir Manchester United í afar mikilvægum leik fyrir bæði lið í Evrópubaráttunni á sunnudag. Með sigri væri Villa aðeins 3 stigum á eftir United, sem þó á tvo leiki til góða.