Arsenal hefur áhuga á að fá N’Golo Kante til liðs við sig í sumar. Þetta segir á vef Mirror.
Kante, sem er 32 ára gamall, verður samningslaus hjá Chelsea í sumar og getur því farið á frjálsri sölu ef ekki næst að endursemja.
Arsenal er í leit að styrkingu á miðsvæði sitt. Hópur Skyttanna er þunnskipaður, sem er líklega að koma í bakið á þeim í titilbaráttunni við Manchester City núna.
Chelsea hefur hrúgað inn leikmönnum undanfarið og því gæti Kante hugsað sér að leita annað.
Miðjumaðurinn hefur verið á mála hjá Chelsea síðan 2016, en þar áður sló hann í gegn hjá Leicester.
Fari Kante frá Chelsea til Arsenal verður hann annar miðjumaðurinn til að gera það á skömmum tíma. Jorginho fór frá Stamford Bridge og á Emirates-leikvanginn í janúar.