Það er útlit fyrir að Mauricio Pochettino taki við sem knattspyrnustjóri Chelsea í sumar. Enska götublaðið The Sun stillti upp tveimur mögulegum útgáfum af byrjunarliðinu undir hans stjórn.
Chelsea er í stjóraleit eftir að Graham Potter var látinn fara á dögunum. Frank Lampard stýrir nú liðinu en aðeins fram á sumar.
Julian Nagelsmann var efstur á blaði Todd Boehly þar til í síðustu viku, þegar hann dró sig úr viðræðum. Pochettino er nú fyrsti kostur.
Viðræðurnar á milli Chelsea og Pochettino eru nú að færast á lokastig, en enn á eftir að ganga frá formsatriðum.
Pochettino hefur verið án starfs frá því hann var látinn fara frá Paris Saint-Germain síðasta vor.
Fyrra byrjunarliðið byggist á því að Victor Osimhen komi til Chelsea frá Napoli. Hann hefur verið orðaður við stærstu félög Evrópu eftir magnað tímabil með Napoli.
Í liðinu er einnig Cristopher Nkunku, sem er á leið til Chelsea frá RB Leipzig.
Í seinna liðinu er gert ráð fyrir að Pochettino endurnýji kynnin við Harry Kane, framherja Tottenham. Enski framherjinn á aðeins ár eftir af samningi sínum og gæti farið í sumar. Í liðinu er einnig Mason Mount, en hann hefur verið orðaður frá Chelsea.