Sjúkrateymi Arsenal þorir ekki að láta William Saliba varnarmann félagsins spila, ástæðan eru meiðsli í baki sem hafa haldið honum frá vellinum.
Saliba hefur ekki spilað í rúman mánuð vegna eymsla í baki en vonir hafa staðið til um að hann gæti farið að snúa aftur.
Arsenal hefur saknað Saliba afar mikið í undanförnum leikjum en Arsenal hefur gert þrjú jafntefli í röð í deildinni og lekið inn mörkum.
Segir í enskum fjölmiðlum í dag að fari Saliba of hratt af stað óttist sjúkrateymi Arsenal að hann verði lengi frá í kjölfarið.
Vilja þeir því ekki taka neina sénsa og er sagt útilokað að Saliba verði með á miðvikudag þegar Arsenal heimsækir Manchester City. Arsenal er á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot á City en City á tvo leiki til góða.