Jóhann Berg Guðmundsson leikmaður Burnley og íslenska landsliðsins var gestur í hlaðvarpsþættinum, Chess After Dark um helgina. Drengirnir heimsóttu Jóhann til Manchester og fóru yfir sviðið.
Jóhann hefur verið atvinnumaður frá árinu 2008 en framlengdi á dögunum samning sinn við félagið sem er á leið aftur í ensku úrvalsdeildina og hefur þá verið hjá félaginu í átta ár.
„Ég sé ekki eftir neinu, þetta hefur spilast alveg eins og ég óskaði. Aðeins meiðsli sem hafa hrjáð mig, ég tel mig hafa átt eitt stærra move frá Burnley. Það er eina en þetta er hluti af þessu,“ sagði Jóhann Berg sem hefur blómstrað á þessu tímabili.
Hann segir að stærsti samningur hans á ferlinum hafi verið hjá Burnley í ensku úrvalsdeildinni og viðurkenndi að það hafi gefið vel í aðra hönd.
Jóhann var einnig spurður að því hvað væru stærstu félögin sem hefðu sýnt honum áhuga. „Þegar ég var hjá AZ Alkmaar þá var það Real Sociedad, kannski Southampton á sínum tíma. Ég veit ekki hvort það er stærra en Burnley.“
Hann var svo spurður að því hver væri besti þjálfarinn á ferlinum. „Vincent Kompany, by a mile. Hann er á öðru leveli,“ segir Jóhann Berg.