Erik ten Hag hefur, samkvæmt fréttum, sagt Manchester United að kaupa miðjumann Inter þegar félagaskiptaglugginn opnar í sumar.
United hefur verið að gera frábæra hluti undir stjórn Hollendingsins, sem tók við í sumar, undanfarið. Liðið varð til að mynda deildabikarmeistari á dögunum.
Ten Hag vill hins vegar styrkja liðið í sumar og þá helst á miðsvæðinu. Vefmiðillinn Football Insider heldur því fram að hann hafi sagt stjórn United að kaupa Nicolo Barella frá Inter í sumar.
Ten Hag er sagður mikill aðdáandi Barella. United gæti þó fengið samkeppni í baráttunni um leikmaninn. Liverpool og Manchester City eru einnig sögð fylgjast með honum.
Komi Barella á Old Trafford er ekki ólíklegt að Scott McTominay hverfi á brott, þá sérstaklega ef Marcel Sabitzer, sem er á láni hjá United frá Bayern Munchen, gengur endanlega í raðir enska félagsins.
Barella er 26 ára gamall Ítali. Hann er að eiga gott tímabil í Serie A, þar sem hann kemur að marki í um það bil öðrum hverjum leik.