Luka Lochoshvili hlaut háttvísiverðlaun FIFA á verðlaunahátíð sambandsins í gær. Hann fékk þau fyrir að bjarga lífi andstæðings í miðjum knattspyrnuleik í fyrra.
Atvikið átti sér stað þegar Lochoshvili var leikmaður Wolfsberger og liðið mætti Austria Wien. Georgíumaðurinn er í dag á mála hjá Cremonese á Ítalíu.
Georg Teigl, leikmaður Austria Wien, hneig til jarðar eftir samstöð og gleypti tungu sína.
Á meðan aðrir leikmenn kölluðu til aðstoð fór Georgíumaðurinn beint að Teigl og setti hönd sína upp í munn hans og bjargaði honum frá köfnun.
Teigl var svo komið í læknishendur og leikmenn beggja liða hrósuðu Lochoshvili í hástert.
„Ég vissi sem betur fer hvað ég ætti að gera. Allir hefðu gert það sem ég gerði. Ég held ég hafi náð tungunni hans á síðustu stundu,“ sagði Lochoshvili um atvikið í fyrra.
Fyrir hetjudáðina hlaut kappinn háttvísiverðlaun FIFA í gær. Hann gat þó ekki tekið við þeim í persónu þar sem Cremonese á leik við Roma í Serie A í kvöld. Hann fékk þó dynjandi lófaklapp frá viðstöddum.
Hér að neðan má sjá atvikið.
BREAKING: Luka Lochoshvili has won the FIFA fair play award, who helped save the life of Austria Wien player, Georg Teigl 🙏👏pic.twitter.com/RmjsqIs6u7
— SPORTbible (@sportbible) February 27, 2023