Chelsea hefur verið í algjöru brasi undanfarið og virðist tímabilið ætla að fara illa fyrir liðið.
Chelsea situr í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, 14 stigum frá sæti í Meistaradeild Evrópu og í gær tapaði liðið 2-0 fyrir Tottenham.
Eiður Smári Guðjohnsen var á Vellinum á Símanum Sport í gær og ræddi gengi síns gamla liðs.
„Þetta er pínu sorglegt fyrir mig sem fyrrum Chelsea mann að sjá þetta,“ sagði Eiður í þættinum.
Sæti stjórans Graham Potter er farið að hitna. Einhverjir stuðningsmenn hafa farið langt yfir strikið og sent honum og fjölskyldu hans hótanir.
„Það á auðvitað engan veginn að eiga sér stað. Þetta er nú einu sinni bara fótbolti,“ sagði Eiður.
Hann telur þó að tími Potter með Chelsea sé senn á enda.
„Því miður held ég að þetta sé bara aðeins of stórt hlutverk fyrir Graham Potter.“
Eiður tekur þó fram að starfið sé ekki auðvelt.
„Todd Boehly kemur inn og verslar nánast alla sem eru til á markaðnum. Þetta er eins og að kaupa milljón púsl, henda þeim á borðið og segja þjálfaranum að púsla þeim saman.“