Samkvæmt hinum virta félagaskiptasérfræðingi Fabrizio Romano hefur Liverpool áhuga á miðverðinum Josko Gvardiol og gæti reynt að fá hann í sumar.
Króatinn er að eiga frábæra leiktíð með RB Leipzig í Þýskalandi og ljóst að hann mun fara í stærra félag og stærri deild fyrr eða síðar.
Gvardiol var nálægt því að ganga í raðir Chelsea síðasta sumar en að lokum gengu skiptin ekki eftir.
Chelsea getur heldur betur séð mikið eftir því í dag. Frábært tímabil með Leipzig, sem og Heimsmeistaramót með króatíska landsliðinu fyrir áramót, hefur hækkað verðmiðann á Gvardiol mikið.
Gvardiol skoraði fyrir Leipzig í 1-1 jafntefli gegn Manchester City í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.
Liverpool hefur verið í vandræðum á þessari leiktíð og leitar að styrkingu fyrir þá næstu.