Ýmsar árlegar viðurkenningar eru jafnan afhentar í aðdraganda ársþings KSÍ og á ársþinginu sjálfu eftir atvikum.
Fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ fyrir árið 2022 hlýtur Bjarni Helgason fyrir þættina “Dætur Íslands” á mbl.is.
Í aðdraganda EM kvenna 2022 vann Bjarni Helgason stjörnublaðamaður á Morgunblaðinu og mbl.is vefsjónvarpsþættina “Dætur Íslands” þar sem hann fjallaði um A landslið kvenna. Hallur Már Hallsson sá um myndbandsvinnslu, upptökur og klippingu.
Þættirnir voru alls tíu talsins þar sem Bjarni ræddi við níu leikmenn auk þjálfara liðsins. Um var að ræða opna og áhugaverða þætti sem sýndu viðmælendurna í nýju og skemmtilegu ljósi og gaf stuðningsmönnum tækifæri til að kynnast nýjum hliðum á stjörnum íslenska liðsins.