Erik ten Hag, núverandi knattspyrnustjóri Manchester United hefur nú greint frá því hvað fór á milli sín og Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóra félagsins og goðsögn í knattspyrnuheiminum, er þeir snæddu saman kvöldverð á veitingastað í Manchesterborg á dögunum.
Það virtist hafa verið góð stemming á Cibo veitingastaðnum í úthverfi Manchester í gær þar sem Erik ten Hag stjóri Manchester United fór á fund Sir Alex Ferguson.
Ten Hag og Ferguson sátu saman um langt skeið á staðnum og fengu sér að snæða og drekka.
Nú hefur Ten Hag greint frá því hvað fór þeirra á milli þessa kvöldstund og hversu miklu máli það skiptir fyrir sig að eiga stuðning í Ferguson.
,,Ég nýt þess að spjalla við fólk sem býr að mikilli þekkingu og reynslu á sínu sviði,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi fyrir síðari leik Manchester United gegn Barcelona í Evrópudeildinni.
Ferguson sé einn þeirra sem vilji miðla sinni reynslu.
,,Hann vill deila þessu með mér, hann vill hjálpa til og styðja við Manchester United, hans félag og gerir það af mikilli ástríðu. Hann vill að okkur gangi vel. Þetta var frábært kvöld.“