Real Madrid gerði góða ferð til Bítlaborgarinnar Liverpool og bar þar sigurorðið gegn heimamönnum í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Lokatölur á Anfield 5-2 sigur Real Madrid.
Það virtist stefna í ansi sérstakt kvöld fyrir Liverpool og stuðningsmenn félagsins á fyrstu mínútunum í leik kvöldsins en þegar að fjórtán mínútur voru liðnar af leiknum, var Liverpool komið tveimur mörkum yfir.
Það voru Darwin Nunez og Mohamed Salah sem skoruðu þau mörk fyrir Liverpool en það átti nú heldur betur eftir að færast fjör í leikana í kjölfarið.
Á 21. mínútu minnkaði Vinicíus Júnior metin fyrir Real Madrid og rúmum stundarfjórðungi seinna var hann aftur á ferðinni og jafnaði leikinn.
Leikar stóðu því jafnir þegar flautað var til hálfleiks, 2-2. Í síðari hálfleik sigu Evrópumeistararnir þó fram úr.
Þegar að tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik kom Eder Militao, Real Madrid yfir og átta mínútum síðar bætti Karim Benzema við fjórða marki liðsins.
Benzema var síðan aftur á ferðinni á 67. mínútu er hann bætti við fimmta marki Real Madrid og reyndist það lokamark leiksins.
Lokatölur á Anfield í kvöld 5-2 sigur Real Madrid. Evrópu- og Spánarmeistararnir fara því með gott forskot inn í seinni leik liðanna sem fer fram í Madrid þann 15. mars næstkomandi.
Í hinum leik kvöldsins í 16-liða úrslitum vann Napólí afar góðan sigur á Eintracht Frankfurt á útivelli.
Napólí hefur verið að spila frábærlega á yfirstandandi tímabili og á því var engin breyting í kvöld.
Victor Osimhen skoraði fyrsta mark liðsins í kvöld á 40. mínútu eftir stoðsendingu frá Hirving Lozano.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 65. mínútu þegar að Giovanni Di Lorenzo tvöfaldaði forystu Napóli og tryggði þeim 2-0 sigur.