Rio Ferdinand, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu og fyrrum leikmaður Manchester United hefur leyst frá skjóðunni hvað varðar ástæðuna að baki markafagni núverandi stjörnuleikmanns félagsins.
Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir stjórn hollenska knattspyrnustjórans Erik ten Hag og raðar nú inn mörkum fyrir félagið.
Fagn Rashford, eftir að hann hefur sett boltann í netið fyrir félagið, hefur vakið athygli en iðulega fagnar Rashford með því að standa kjurr og halda vísifingri við eyra sitt líkt og sjá má hér fyrir neðan:
Í nýjasta YouTube þætti sínum, Vibe With Five, leysir Rio Ferdinand frá skjóðunni hvað varðar ástæðuna að baki fagni Rashford.
Ferdinand segist hafa rætt fagnið við Rashford sjálfan á æfingasvæði Manchester United á dögunum.
Og í raun eru afar auðlesin og skýr skilaboð með fagni hans.
,,Hann vill í raun með þessu varpa ljósi á andlegan styrk og mikilvægi hans. Þetta fagn er orðið heimsfrægt núna, allir ungu krakkarnir fagna svona þegar að þeir skora mark. Það eru áhrifin sem Rashford er farinn að hafa.“