Brasilíumaðurinn Rodrygo gekk í raðir Real Madrid frá Santos í heimalandinu árið 2019. Hann hefði þó getað endað hjá erkifjendunum.
Real Madrid keypti Rodrygo á 40 milljónir punda 2019. Barcelona leiddi hins vegar kapphlaupið um leikmanninn þar til Madrídarfélagið steig inn í.
Rodrygo hélt um tíma að hann færi til Börsunga.
„Það var auðvelt fyrir mig að velja en samt var allt samþykkt með Barcelona,“ segir hann.
„Þetta kom mér á óvart. Ég bjóst ekki við því að Real Madrid myndi bjóða í mig. Þetta leit ekki vel út um tíma en varð svo ein hamingjusamasta stund lífs míns.“
Hinn 22 ára gamli Rodrygo hefur unnið sjö titla með Real Madrid, þar á meðal Meistaradeild Evrópu og Spánarmeistaratitilinn.
Á þessari leiktíð hefur Rodrygo skorað tíu mörk og lagt upp sex í 32 leikjum í öllum keppnum.