Manchester United og Leeds United skiptu með sér stigunum í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Liðin mættust á Old Trafford í Manchesterborg og urðu lokatölur þar 2-2. Heimamenn lentu tveimur mörkum undir í leiknum.
Leikmenn Leeds United voru fljótir að láta finna fyrir sér því strax á 1. mínútu leiksins skoraði Wilfried Gnonto eftir stoðsendingu frá Patrick Bamford. Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.
Það var síðan á fyrstu mínútum fyrri hálfleiksins sem forysta Leeds United tvöfaldaðist. Á 48. mínútu varð Raphael Varane, varnarmaður Manchester United fyrir því óláni að koma boltanum í sitt eigið net og staðan því orðin 2-0 fyrir gestina frá Leeds.
Á 59. mínútu gerði Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United tvöfalda skiptingu. Inn á komu Jadon Sancho og Facundo Pellistri og af velli fóru þeir Wout Weghorst og Alejandro Garnacho, stuttu seinna fóru hlutirnir að gerast.
Marcus Rashford, sem farið hefur með himinskautum á yfirstandandi tímabili, minnkaði muninn fyrir Manchester United með marki á 62. mínútu.
Það var síðan tæpum átta mínútum síðar sem Jadon Sancho jafnaði metin fyrir heimamenn en hann hafði komið inn sem varamaður rétt rúmum tíu mínútum fyrir markið.
Þetta reyndist lokamark leiksins sem endaði með 2-2 jafntefli.
Manchester United er áfram í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 43 stig, tveimur stigum á eftir Manchester City sem situr í öðru sæti og sjö stigum á eftir toppliði Arsenal en bæði lið eiga leik/i til góða á Manchester United.
Leeds United er sem stendur í 16. sæti deildarinnar, einu stigi frá fallsæti.