Forráðamenn Manchester City óttast það að Jude Bellingham hafi ekki áhuga á að koma til félagsins með þá óvissu sem nú ríkir.
Enska úrvalsdeildin ákærði City í gær í 115 liðum fyrir brot tengdum fjármálum, er félagið sakað um að hafa svindlað á kerfinu um nokkura ára skeið.
Brotin sem City er sakað um eru ítrekuð og tengjast greiðslum til leikmanna og styrktarsamningum til félagsins.
Bellingham sem er miðjumaður Borussia Dortmund er eftirsóttur biti og verður til sölu í sumar. Telegraph segir að óvissan í kringum City næstu daga gæti haft veruleg áhrif á hvar hann endar.
Liverpool og Real Madrid hafa mikinn áhuga á Bellingham líkt og City, þá hefur Manchester United fylgst með gangi mála.
Mál City fer nú til meðferðar en ekki hefur komið fram hvenær málið verður tekið fyrir en ensku meistararnir neita sök.