Slóvenski knattspyrnumaðurinn Filip Valencic hefur skrifað undir eins árs samning við knattspyrnudeild ÍBV. Þetta segir á heimasíðu félagsins.
Filip er 31 árs miðjumaður sem hefur leikið með öllum yngri landsliðum Slóveníu. Á ferli sínum hefur hann leikið í heimabæ sínum í Ljubljana og síðan einnig með Notts County, Stabæk, Monza og Dinamo Minsk.
Þá hefur hann leikið stóran hluta ferilsins í Finnlandi en hann var síðast á mála hjá KuPS og áður hjá Inter Turku, HJK og PS Kemi. Með HJK varð hann finnskur meistari í þrígang. Með KuPS var hann í eldlínunni í undankeppni Sambandsdeildarinnar (UECL) og skoraði þar eitt mark í fjórum leikjum 2022.
Í Finnlandi var hann leikmaður ársins árið 2017 og 2019, en seinna árið var hann einnig markahæsti leikmaður deildarinnar, hann getur leyst stöður inni á miðjunni og í sókninni.
ÍBV hafnaði í áttunda sæti Bestu deildarinnar síðasta sumar.