Íþróttafréttamaðurinn Víðir Sigurðsson skrifar ansi harðorðan Bakvörð í Morgunblað í dag. Þar gagnrýnir hann aðbúnað íslensks landsliðsfólks hér heima og stöðu mála er snýr að Þjóðarhöll- og leikvangi.
„Sú stund þegar Ísland þarf að spila sinn fyrsta heimaleik á erlendri grundu nálgast hægt og bítandi. Við vitum ekki nákvæmlega enn þá í hvaða íþróttagrein það verður,“ skrifar Víðir.
Á dögunum kynntu ríki og borg áætlanir um að reisa nýja fimmtán milljarða þjóðarhöll. Vonir standa til um að framkvæmdir hefjist á næsta ári og ljúki í árslok 2025. Umræðan hefur þó lengi verið í gangi. Málin virðast þokast hægt áfram þegar snýr að leikvangi fyrir knattspyrnulandsliðin.
„Nægja áætlanir um nýja þjóðarhöll til þess fá undanþágur fyrir heimaleikina í handbolta og körfubolta næstu tvö árin? Og verður sú ágæta höll komin af teikniborðinu og orðin að veruleika eftir þrjú ár? Verður hægt með einhverjum dýrum töfrabrögðum að spila umspilsleiki í fótbolta á Laugardalsvellinum í mars árin 2026 eða 2027?“ spyr Víðir.
Hann bendir á að frábær aðstaða sé í bæum í Noregi og Svíþjóð, þó svo að þeir séu ekki þeir stæstu.
„Hvers vegna í ósköpunum er sambærileg aðstaða ekki komin hér á landi fyrir löngu síðan? Árið er 2023 og ekki einu sinni búið að taka skóflustungu. Staðan í þessum málum er landi og þjóð til skammar. Það er gömul tugga. En þegar að því kemur að Ísland spilar heimaleik í Þórshöfn í Færeyjum eða Kristianstad í Svíþjóð verður það einhver mesta niðurlæging Íslandssögunnar.“