Félög í ensku úrvalsdeildinni eyddu 815 milljónum punda í nýja leikmenn í félagaskiptaglugganum í janúar. Jafngildir það tæpum 142 milljörðum íslenska króna.
Til samanburðar er þetta þrisvar sinnum meiri eyðsla hjá enskum félögum en í janúar í fyrra.
Chelsea var fyrirferðarmest af félögum deildarinnar og eyddu 37 prósentum af þessum 815 milljónum punda. Eyddi félagið meira en félög í efstu deildum Spánar, Frakklands, Ítalíu og Þýskalands til samans.
Chelsea gerði Enzo Fernandez í gær að dýrasta leikmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Hann var keyptur frá Benfica á tæpar 107 milljónir punda.
Þá keypti félagið Mykhailo Mudryk frá Shakhtar Donetsk á tæpar 90 milljónir punda. Leikmenn á borð við Joao Felix og Benoit Badiashile komu einnig í janúar, sá fyrrnefndi á láni.
Bournmouth, sem er í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar, eyddi næst mest allra félaga í deildinni.