Andy Robertson, bakvörður Liverpool, segir að Sadio Mane hafi oft verið sektaður hjá félaginu.
Mane yfirgaf Liverpool í sumar og fór til Bayern Munchen eftir sex ár á Anfield. Á tíma sínum þar vann hann bæði ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu, svo eitthvað sé nefnt.
Hann fékk hins vegar oft sektir fyrir að gleyma vegabréfi sínu, að sögn Robertson.
„Ef þú gleymdir vegabréfinu þínu fyrir ferðalag í útileik var stór hluti launa þinna tekinn af þér,“ segir hann.
Þetta kom reglulega fyrir hjá Mane.
„Þetta gerðist nokkrum sinnum. Sadio lenti oft í þessu. Þetta seinkar auðvitað fluginu og hvenær við komumst á áfangastað. Sektin þurfti því að vera há.“
Mane verður seint þekktur fyrir vandræði utan vallar og kemur þetta því einhverjum á óvart.