Marcelo Bielsa er hefur miklar efasemdir gagnvart því að taka að sér starf knattspyrnustjóra hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton eftir að Frank Lampard var sagt upp störfum í gær, innan við ári frá því að hann var ráðinn í starfið.
Frá þessu greinir Daily Mail en Bielsea er sagður vera fyrsti kostur forráðamanna Everton í starfið og hefur félagið nú þegar sett sig í samband við stjórann reynslumikla.
Daily Mail greinir þessar vendingar sem mikið högg fyrir forráðamenn Everton en óvíst er á þessari stundu hvort Everton ætli sér að reyna sannfæra stjórann eða skipta um stefnu og reyna við aðra knattspyrnustjóra.
Sean Dyche, fyrrum knattspyrnustjóri Burnely hefur lengi vel verið talinn líklegasti arftaki Lampard hjá Everton en Daily Mail segir efasemdarraddir meðal forráðamanna Everton um það hvort hann sé rétti maðurinn í starfið.
Sam Allardyce, fallbaráttumeistari og fyrrum landsliðsþjálfari Englands hefur verið að fá aukið vægi í umræðunni um næsta knattspyrnustjóra Everton. Reynsla hans að bjarga liðum frá falli í ensku úrvalsdeildinni hefur þar mikið að segja.
Allardyce var á mála hjá Everton í sex mánuði á árununum 2017-2018. Hann bjargaði liðinu frá falli á þeim tíma og stýrði þeim upp í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Everton er sem stendur í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir 20 umferðir, tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni og aðeins þrjá sigra á bakinu.