Antonio Conte, stjóri Tottenham, vill sjá stjórnina tjá sig um stöðu félagsins frekar en að hann þurfi að svara spurningum í hverri viku.
Gengi Tottenham hefur verið fyrir neðan væntingar á tímabilinu og virðist félagið vera á leið aftur á bak frekar en áfram.
Conte er vanur ýmsu eftir að hafa starfað á Ítalíu þar sem eigendur og yfirmenn knattspyrnumála eru reglulega í fjölmiðlum.
Það er ekki venjan á Englandi en þar þarf knattspyrnustjórinn yfirleitt að svara öllum spurningum varðandi ástand liðsins.
,,Á Englandi þá er ákveðin venja að það er bara stjórinn sem kemur fram og tjáir sig um stöðuna,“ sagði Conte.
,,Ég hef aldrei séð yfirmann knattspyrnumála eða félagið koma fram og útskýra stefnu félagsins eða hvað sé framundan.“
,,Sem dæmi, á Ítalíu þá er alltaf aðili frá félaginu sem tjáir sig við fjölmiðla fyrir hvern einasta leik.“
,,Það væri mun betra ef það væri staðan hjá okkur, það væri miklu betra fyrir félagið að tjá sig um stöðuna. Þetta er ákveðin venja og ég verð að virða hana.“