Marcus Rashford framherji Manchester United er í viðræðum við félagið um nýjan samning. Núverandi samningur Rashford rennur út sumarið 2024.
United nýtti sér klásúlu í samningi Rashford á dögunum til að framlengja hann um eitt ár.
Félagið er hins vegar byrjað í viðræðum og segir staðarblaðið í Manchester að Rashford standi til boða að þéna 300 þúsund pundá viku.
Í Manchester Evening News segir að félagið vinni nú eftir „Ronaldo reglunni“ sem er þannig að félagið mun ekki borga neinum leikmanni meira en 300 þúsund pund á viku.
Aðeins David De Gea þénar meira en það í dag eftir að Cristiano Ronaldo fór en De Gea er í viðræðum um nýjan samning og launalækkun í kjölfarið.
Rashford er 25 ára gamall en hann hefur skorað 16 mörk í öllum keppnum á þessu tímabili og hefur tekist að blómstra á nýjan leik undir stjórn Erik ten Hag.