Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var hundfúll í gær er hann sá lið sitt tapa 3-0 gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni.
Klopp segir að þetta hafi verið versti leikurinn á hans ferli en hann gerði áður garðinn frægan með Borussia Dortmund.
Klopp getur ekki nefnt einn jákvæðan hlut við leik gærdagsins og var gríðarlega ósáttur í leikslok.
,,Ég er ótrúlega pirraður. Til hamingju Brighton sem spilaði mjög vel gegn lélegum andstæðingi. Við vorum ekki góðir í dag og ég man ekki eftir einu jákvæðu augnabliki,“ sagði Klopp.
,,Við reyndum að hjálpa strákunum og breyttum um kerfi en það virkaði ekkert. Þetta er á minni ábyrgð og ég veit það.“
,,Ég get ekki munað eftir verri leik og ekki bara hjá Liverpool og það er mér að kenna. Þetta er lágpunkturinn.“