Manchester United hefur sett Harry Kane á lista sinn yfir framherja sem félagið hefur áhuga á að kaupa næsta sumar.
ESPN fjallar um málið en þar er sagt að þrír framherjar séu á blaði félagsins fyrir sumarið.
Cristiano Ronaldo hvarf á braut í desember og félagið er í leit að sóknarmanni. Kane gæti verið til sölu í sumar ef hann skrifar ekki undir nýjan samning.
Kane mun eiga tólf mánuði eftir af samningi sínum í sumar. ESPN segir að Victor Osimhen framherji Napoli sé einnig á blaði auk Benjamin Sesko framherja RB Salzburg.
Wout Weghorst framherji Burnley er líklega að koma á láni til félagsins fram á sumar en hann er ekki líklegur til þess að leiða framlínuna til framtíðar.
Kane var nálægt því að ganga í raðir Manchester City fyrir rúmu ári en nú virðist Manchester United gera sér vonir.