Enzo Fernandez, leikmaður Benfica, hefur verið sterklega orðaður við Chelsea undanfarið. Þjálfari portúgalska liðsins, Roger Schmidt, segir hann hins vegar alls ekki til sölu.
Argentínumaðurinn var valinn besti ungi leikmaður Heimsmeistaramótsins í Katar, þar sem hann varð meistari með sínu liði.
Í kjölfarið var hann orðaður við stærri lið en Benfica og var Chelsea helst nefnt til sögunnar. Félögin tvö hafa átt í viðræðum.
„Sagan í kringum Enzo er búin, það er ekkert eftir. Hann er okkar leikmaður,“ segir Schmidt.
Þýski þjálfarinn segir leikmanninn sáttan hjá Benfica og að hann sé ekki að hugsa sér til hreyfings.
„Hann er í góðri stöðu. Enzo er sáttur, hann æfir vel og er hluti af liðinu.
Hann er algjör lykilmaður.“
Klásúla er í samningi Fernandez sem gerir honum kleyft að fara ef eitthvað félag býður Benfica 120 milljónir evra.