Eyjamaðurinn Jón Ingason hefur skrifað undir tveggja ára samning við ÍBV.
„Hann þarf varla að kynna fyrir Eyjamönnum sem hafa fylgst með boltanum síðustu 10 ár. Jón er á sínu 28. aldursári og lék sem miðvörður og vinstri bakvörður í sumar,“ segir á vef ÍBV.
Jón kom vel inn í lið ÍBV á liðnu ári eftir erfið meiðsli sem gerðu það að verkum að hann gat ekkert leikið á tímabilinu 2021. Hann lék 14 leiki í ár og 23 leiki árið 2020, það ár var hann leikmaður ársins hjá ÍBV, eftir að hann kom aftur til liðsins frá Grindavík en árin þar áður lék hann með þeim í efstu deild.
„Jón, sem lék með öllum yngri flokkum ÍBV, var lykilmaður í liði ÍBV sem fór alla leið í úrslitaleik Borgunarbikarsins árið 2016 þar sem liðið lagði FH, Stjörnuna og Breiðablik að velli á leið sinni í úrslitaleikinn. Jón á samtals 183 meistaraflokksleiki skráða hjá KSÍ og þeim mun því halda áfram að fjölga í ÍBV treyjunni á komandi árum,“ segir á vef ÍBV.