Al-Nassr mun leika sinn fyrsta leik frá komu Cristiano Ronaldo í dag en kappinn má hins vegar ekki vera með í honum.
Ronaldo gekk í raðir félagsins á dögunum og er nú hæst launaði íþróttamaður sögunnar. Portúgalinn þénar 173 milljónir punda á ári þegar auglýsingasamingar og annað er tekið inn í myndina.
Al-Nassr mætir Al Taee í dag en má Ronaldo ekki vera með. Hann fékk tveggja leikja bann frá enska knattspyrnusambandinu nýlega vegna atviks sem átti sér stað í vor.
Þá sló Ronaldo síma úr höndum einhverfs stráks. Atvikið átti sér stað eftir tap Manchester United gegn Everton á síðustu leiktíð.
Bannið fylgir Ronaldo til Sádi-Arabíu.
Kappinn verður því einnig í banni þegar Al-Nassr heimsækir Al-Shabab þann 14. janúar.
Útlit er fyrir að fyrsti leikur Ronaldo fyrir Al-Nassr verði á heimavelli gegn Al-Ettifaq þann 21. janúar.