Leikur Lecce og Lazio í Serie A var stöðvaður um stund í gær vegna kynþáttaníðs stuðningsmanna síðarnefnda liðsins í garð Samuel Umtiti og Lameck Banda, leikmanna Lecce.
Heimemenn í Lecce unnu leikinn 2-1. Ciro Immobile kom gestunum yfir en Gabriel Strefezza og Lorenzo Colombo sneru dæminu við fyrir Lecce.
Þórir Jóhann Helgason var ekki með liðinu í leiknum vegna meiðsla.
Það þurfti að stöðva leikinn um hríð vegna kynþáttaníðsins í garð Umtiti og Banda.
Samkvæmt fréttum var Umtiti mikið niðri fyrir og grét er hann var farinn af vellinum.
Hann sneri hins vegar aftur til að halda leik áfram. Þá var nafn hans sungið af stuðningsmönnum Lecce,
Knattspyrnuheimurinn fordæmir hegðun stuðningsmanna Lazio. Þar á meðal er Gianni Infantino, umdeildur forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA).