Real Madrid tók á móti Manchester City í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Leikið var á Spáni. City vann fyrri leikinn 4-3 á Englandi og því verk að vinna fyrir lærisveina Carlo Ancelotti í kvöld. Heimamenn áttu ágætis spretti í fyrri hálfleik en tókst ekki að koma boltanum í netið og markalaust í leikhléi.
City menn héldu föstu fyrir og voru skipulagðir í aðgerðum sínum og uppskáru mark á 73. mínútu þegar Bernardo Silva æddi í gegnum miðsvæðið og kom boltanum á Riyad Mahrez sem hamraði boltann í netið á nærstönginni framhjá Thibaut Courtois. Staðan 1-0 fyrir gestina og 5-3 samanlagt. Jack Grealish komst tvisvar nálægt þvi að bæta við marki fyrir City á 86. mínútu en fyrra skot hans var varið á marklínu og það seinna fór rétt framhjá stönginni.
Rodrygo, sem kom inn á sem varamaður, skoraði tvö mörk á 90. og 91. mínútu og jafnaði þar með stöðuna í einvíginu. Fyrra markið kom eftir sendingu frá Karim Benzema og það síðara skoraði hann með skalla eftir fyrirgjöf frá Asensio. Leikurinn fór því í framlengingu þar sem Karim Benzema skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur, lokatölur í einvíginu 6-5 Madrídingum í vil.
Ótrúleg endurkoma Real Madrid sem mætir Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar laugardaginn 28. maí.