Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, minnist knattspyrnugoðsagnarinnar Pelé, sem lést á fimmtudag.
Pelé hafði lengi verið á spítala en lést í faðmi fjölskyldu sinnar á fimmtudag, 82 ára að aldri.
Kappinn var einn allra besti knattspyrnumaður sem fram hefur komið á sjónarsviðið.
„Það mun aldrei koma fram á sjónarsviðið önnur knattspyrnugoðsögn eins og Pelé. Hann heimsótti Ísland einu sinni og heillaði okkur með hlýju sinni og hógværð,“ skrifar Guðni á samfélagsmiðla.
Þarna vísar forsetinn í það þegar Pelé sótti Ísland heim árið 1991 og eyddi hér þremur dögum.
Þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir í heimalandi Pelé, Brasilíu, í kjölfar andláts hans. Hann er í algjörri guðatölu í landinu.