Landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson mætti í hlaðvarpsþáttinn Chess After Dark þar sem farið var yfir víðan völl.
Þar var til að mynda rifjuð upp færsla Ísaks um Helga Mikael Jónasson á Instagram sumarið 2021. Miðjumaðurinn var að horfa á leik ÍA og Víkings en hann er mikill stuðningsmaður fyrrnefnda liðsins og alinn upp þar.
Víkingur fékk víti í blálokin og vann leikinn.
„Trúðalestin enn og aftur. Hvenær á þessi gæi að hætta að dæma í efstu deild,“ skrifaði Ísak á sínum tíma.
„Hann elskar athyglina. Það eru ekki allir mættir að horfa á þig Helgi Mikael. Þið eruð flottir. Rosa flottir. Til hamingju núna fáið þið athygli. Það sem þið vilduð,“ skrifaði reiður Ísak.
Kappinn hefur þó jafnað sig í dag.
„Mér fannst svolítið verið að hjálpa stóru liðunum, flauta okkur niður. Það var ekki bara þetta augnablik það voru mörg önnur á tímabilinu. Umræðan var þannig að ÍA væri að fara að falla, Víkingur eða Breiðablik að vinna og ÍA væri bara litla liðið,“ segir Ísak í Chess After Dark.
„Helgi Mikael er flottur dómari og dæmdi hjá okkur í Sambandsdeildinni. Við tókumst í hendur og málið leyst.“