Angel Di Maria, leikmaður Argentínu, vill meina að Louis van Gaal sé versti knattspyrnustjóri sem hann hefur unnið með á ferlinum.
Di Maria og Van Gaal unnu saman í stuttan tíma hjá Manchester United en sá fyrrnefndi var ekki lengi á Englandi og fór fljótt til Paris Saint-Germain.
Í viðtali árið 2021 sagði Di Maria Hollendinginn vera versta þjálfarann á sínum ferli og kenndi honum um misheppnaða dvöl í Manchester.
Van Gaal var spurður út í þessi ummæli Di Maria í gær fyrir leik Hollands og Argentínu sem fer fram í 8-liða úrslitum HM í kvöld.
Van Gaal er í dag landsliðsþjálfari Hollands og er Di Maria leikmaður argentínska liðsins.
,,Kallaði Di Maria mig versta þjálfara sem hann hefur haft? Hann er einn af fáum sem eru á þeirri skoðun,“ sagði Van Gaal.
,,Mér þykir fyrir því og það er sorglegt að hann hafi sagt þetta. Memphis Depay þurfti líka að glíma við þetta í Manchester og í dag kyssumst við á munninn.“