Króatía og Brasilía mætast í 8-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í Katar nú eftir nokkrar mínútur.
Króatar hafa talað fallega um Brasilíumenn í aðdraganda leiksins, en liðið er talið það sigurstranglegasta á mótinu.
Fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, Heimir Hallgrímsson, er í setti RÚV í upphitun fyrir leikinn og segir fólki að falla ekki fyrir því sem Króatar hafa sagt fyrir leik.
„Mér finnst sérstakt í dag að hlusta á þá. Þeir tala Brasilíumenn upp og segja þá líklega til að vinna. Þetta kemur út úr rassgatinu á þeim. Þetta er ekki það sem þeir eru að segja inni í klefa,“ segir Heimir, sem þekkir það að mæta Króatíu með íslenska landsliðinu.
Liðið sem sigrar einvígið í dag mætir annað hvort Argentínu eða Hollandi í undanúrslitum. Þau mætast einmitt klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.