Leynilögga er tilnefnd til bestu gamanmyndarinnar á evrópsku kvikmyndahátíðinni sem fram fer í Hörpu á morgun.
Hannes Þór Halldórsson, fyrrum landsliðsmarkvörður, leikstýrði myndinni.
Þetta er ekki fyrsta kvikmyndahátíðin sem Leynilögga er tilnefnd til verðlauna á. Hún hefur ferðast víða um heim.
Hannes var í viðtali á Vísi í gær þar sem hann var meðal annars beðinn um að velja á milli Leynilöggu og þess að verja víti á móti Lionel Messi á Heimsmeistaramótinu 2018 í Rússlandi, eins og frægt er.
„Þetta er erfið spurning þegar laugardagurinn er á leiðinni. Það eru fjögur ár síðan þetta Messi-atvik átti sér stað. Ég hefði ekki viljað sleppa því samt,“ segir Hannes léttur.
Að lokum komst hann að þeirri niðurstöðu að hann gæti ekki valið.
„Þú getur ekki stillt mér upp við þennan vegg.“