Viðvera maka leikmanna þýska karlalandsliðsins á liðshóteli landsliðsins í Katar eru sögð hafa haft slæm áhrif á andrúmsloftið í landsliðinu og átt sinn þátt í slæmu gengi liðsins sem féll úr leik í riðlakeppni mótsins.
Þýski vefmiðillinn Bild greinir frá því að á tveggja tíma krísufundi forráðamanna þýska knattspyrnusambandsins með landsliðsþjálfarateymi karlalandsliðs sambandsins hafi hegðun vina og fjölskyldumeðlima leikmanna landsliðsins á liðshótelinu verið nefnd sem ein ástæðan á bak við slæmt gengi liðsins á HM í Katar.
Stemningin sem hafi myndast á liðshóteli landsliðsins hafi haft það yfirbragð yfir sér að um frí væri að ræða fremur en keppni á HM í knattspyrnu og að það hafi valdið leikmönnum ónoti.
Hegðun kvennanna á liðshótelinu hafi valdið vandamálum. Þær hafi eytt tíma í að taka af sér sjálfur við sundlaugina og leikmenn á meðan verið með börn sín.
Eftir jafntefli Þýskalands gegn Spánverjum í annarri umferð riðlakeppninnar var unnustum leikmanna boðið að gista á liðshótelinu fyrir lokaleik liðsins í riðlakeppninni.
Unnusturnar fengu leyfi til þess að dvelja í tvær nætur á hótelinu en dvöl þeirra virðist hafa farið öfugt ofan í nokkra úr starfsliði landsliðsins.
Hansi Flick, landsliðsþjálfari Þýskalands er sagður ekki hafa verið hrifinn af þeirri hugmynd að fjölskyldumeðlimir fengu að vera á liðshóteli landsliðsins sem var staðsett um 111 kílómetra frá Doha.