Atli Hrafn Andrason hefur yfirgefið ÍBV í Bestu deild karla og samið við nýliða HK.
Atli er 23 ára leikmaður sem hefur verið með ÍBV síðustu tvö leiktímabil, hjálpaði til við að koma liðinu í efstu deild og hjálpaði svo liðinu að halda sæti sínu í efstu deild með glæsibrag í ár.
Hann lék 46 KSÍ leiki fyrir ÍBV og skoraði í þeim fjögur mörk. Hann gerði flott mark gegn Leikni í ár, í stærsta sigri ÍBV í deildinni.
„Atli small vel við hópinn jafnt innan sem utan vallar og var mikilvægur hlekkur í frábærri liðsheild sem fleytti liðinu langt. Það verður mikill missir af Atla sem heldur nú á önnur mið og kemur til með að leika með HK-ingum sem verða nýliðar í efstu deild á komandi leiktímabili. Við viljum þakka Atla fyrir hans framlag til liðsins og megi framtíð hans vera björt í boltanum,“ segir á vef ÍBV.