Könnun sem portúgalski fjölmiðillinn A Bola birti í blaði sínu hefur komið mikið á óvart.
Þar er fjallað um leik Portúgal og Sviss sem fram fer í kvöld. Leikurinn er liður í 16-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í Katar.
A Bola setti fram könnun og spurði hvort Cristiano Ronaldo ætti að vera í byrjunarliði Portúgala í leiknum. Kappinn hefur ekki heillað alla og verið töluvert gagnrýndur það sem af er móti.
Þar kemur á óvart að 70 prósent lesenda vilja sjá Ronaldo settan á bekkinn fyrir leikinn gegn Sviss í kvöld.
Margir vilja sjá Fernando Santos, landsliðsþjálfara Portúgal, fara að fordæmi Erik ten Hag hjá Manchester United og taka Ronaldo úr liðinu.
Þrátt fyrir þessa könnun er Ronaldo í líklegu byrjunarliði Portúgal í kvöld.
Ronaldo hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Samningi hans hjá United var rift eftir umdeilt viðtal við Piers Morgan. Hann er líklega á leið til Sádi-Arabíu.