Manchester United hefur áhuga á Yann Sommer, markverði Borussia Monchengladbach. Það er þýski fjölmiðillinn Bild sem greinir frá þessu.
Markvarðamál United eru í töluverðri óvissu sem stendur. Samningur David De Gea rennur út næsta sumar.
Sem stendur er Martin Dubravka varamarkvörður. Hann er þó aðeins á Old Trafford á láni. Kappinn er samningsbundinn Newcastle, en United getur keypt hann fyrir fimm milljónir punda næsta sumar.
Þá er Dean Henderson á láni hjá Nottingham Forest frá United.
Það er ansi ólíklegt að United sjái hinn 33 ára gamla Sommer fyrir sér sem aðalmarkvörð sinn á næstu leiktíð. Félagið hefur þó mikinn áhuga á að fá hann. Samningur Svisslendingsins er að renna út næsta sumar. Hann kæmi því á frjálsri sölu til Manchester.
Þessa stundina er Sommer staddur á Heimsmeistaramótinu í Katar með Sviss. Þar spilar liðið við Portúgal í 16-liða úrslitum annað kvöld.