Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, hefur útskýrt af hverju Cristiano Ronaldo fór af velli reiður í leik gegn Suður-Kóreu í vikunni.
Suður-Kórea vann nokkuð óvæntan 2-1 sigur á Portúgal en liðið skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og fer í 16-liða úrslit.
Ronaldo var tekinn af velli í seinni hálfleik og virkaði mjög pirraður og hefur Santos útskýrt af hverju.
Leikmaður Suður-Kóreu vildi að Ronaldo myndi flýta sér af velli um leið og skiptingin átti sér stað en hann tók sinn tíma í að yfirgefa völlinn.
,,Cristiano Ronaldo yfirgaf völlinn pirraður því leikmaður Suður-Kóreu var að neyða hann út af vellinum og jafnvel Pepe þurfti að blanda sér í málið,“ sagði Santos.
,,Ég heyrði hvað leikmaður Kóreu var að segja. Ef þið skoðið myndirnar þá sjáiði af hverju Pepe hjólaði í hann.“