Liverpool fylgist náið með Mohammed Kudus, leikmanni Ajax. Það er staðarmiðillinn Liverpool Echo sem greinir frá þessu.
Kudus, sem er 22 ára gamall, hafði heillað framan af vetri með hollenska liðinu, þá sérstaklega í Meistaradeild Evrópu. Þar skoraði hann fjögur mörk og lagði upp tvö.
Áhuginn á leikmanninum hefur svo ekki minnkað með frammistöðu hans á Heimsmeistaramótinu í Katar. Þar hefur Kudus skorað tvö mörk í jafnmörgum leikjum fyrir Gana í riðlakeppninni.
Samkvæmt Liverpool Echo hefur Klopp fylgst með Kudus frá því liðin mættust í Meistaradeildinni í haust, en þar voru þau saman í riðli.