fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
433Sport

Þorgrímur skerst í leikinn: Þakkar landsliðsfólk fyrir 300 þúsund krónur? – „Starfsmenn líða fyrir álagið og ásakanirnar“

433
Þriðjudaginn 8. nóvember 2022 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgrímur Þráinsson, fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu og fyrrum starfsmaður í kringum A-landslið karla, hefur tekið upp hanskann fyrir starfsfólk KSÍ sem hefur legið undir orrahríð síðustu daga. Hann spyr sig að því hvort landsliðsfólk þakki fyrir sig og þau tækifæri sem KSÍ hefur gefið þeim.

Spjótin hafa svo sannarlega staðið að forystu Knattspyrnusambands Íslands síðustu daga. Sambandið hefur fengið mikla gagnrýni fyrir að spila vináttulandsleik gegn Sádí Arabíu. Sambandið samþykkti leikinn gegn því að fá væna summu greidda frá Sádum. Mannréttindabrot þar í landi eru af ýmsum toga og þykir mörgum það óeðlilegt að Ísland taki leik við slíka þjóð.

Eftir leikinn á sunnudag fékk Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði liðsins treyju frá búningastjóra liðsins fyrir að spila sinn 100 landsleik. Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson fengu samskonar treyju á síðasta ári þegar þeir klukkuðu 100 leikina. Slík hefð hefur ekki skapast í kvennalandsliðinu og við það eru nokkrar landsliðskonur ósáttar. Dagný Brynjarsdóttir steig fram fyrir skjöldu og lét sambandið heyra það.

Þorgrímur skrifar um málið og þakkar þeim þjálfurum sem völdu hann í landsliðið á árum áður. „HJARTANS ÞAKKIR! Ég minnist þess ekki að hafa þakkað Guðna Kjartanssyni landsliðsþjálfara fyrir að hafa valið mig í landsliðið eftir aðeins sjö heila leiki í efstu deild árið 1980. Ég þakkaði heldur aldrei Sigried Held fyrir fallegt bréf þar sem hann sagði að ég væri hluti af landsliðshópnum. Og ég þakkaði heldur ekki Bo Johanson, fyrir að hafa valið mig í landsliðið undir lok ferilsins þegar ég hélt að öll nótt væri úti,“ skrifar Þorgrímur.

Þorgrímur var hluti af starfsliði landsliðsins sem fór Evrópumótið 2016 og Heimsmeistaramótið 2018.

„Ég hef heldur aldrei þakkað KSÍ fyrir að veita mér það frábæra tækifæri að fá að vinna í kringum landsliðið sem fór á EM 2016 og á HM 2018, að treysta mér fyrir ótal krefjandi verkefnum. Og upplifa nokkur af mínum ógleymanlegustu augnablikum á ,,ferlinum.“ Á þessum árum myndaðist ennfremur vinátta og kærleikur sem mun vara eilíflega,“ skrifar Þogrímur.

Þakka leikmenn fyrir 300 þúsund krónur?

Þorgrímur ræðir þá um leikmenn landsliðsins og hvort þeir þakki fyrir allt sem ert gert fyrir þá. „Hvenær þakkar maður fyrir sig, hverjum þakkar maður og af hverju? Hafa leikmenn landsliðsins þakkað KSÍ fyrir að greiða þeim 100.000 á stig, þ.e. 300.000 krónur fyrir sigur í keppnisleik, burtséð frá því hvort þeir spila eða ekki? Þakka leikmenn KSÍ fyrir að veita þeim styttu (áður armbandsúr) fyrir að hafa spilað 50 landsleiki og gefa þeim málverk eftir 100 landsleiki? Ég hef aldrei heyrt um þakkarbréf frá landsliðsmanni í kjölfar þessara höfðinglegu gjafa. Þakka leikmenn KSÍ og landsliðsþjálfurum fyrir að gefa þeim tækifæri á stærsta sviðinu, lokakeppni þar sem alla dreymir um að vera? Ógleymanleg augnablik,“ skrifar Þorgrímur.

Fram hefur komið að búningastjóri landsliðsins hjá körlunum hafði frumkvæðið að treyjunum sem leikmenn fengu.

„Frumkvæði starfsmanna hvers landsliðs er mismunandi af því engir tveir hópar eru eins og engir tveir einstaklingar eins. Eiga ekki aðrir hópar, yngri eða eldri landsliða, hreinlega að læra af þeim sem gera vel og græja treyju, frekar en blóm? Er það ekki hugurinn sem býr að baki gjöfinni sem skiptir öllu máli fremur en það sem gefið er? Vissulega mætti vera samræmi í ,,þakkargjörð“ en sumir sýna hreinlega meira frumkvæði en aðrir, á öllum sviðum. Því ber að fagna og verður þá vonandi öðrum til eftirbreytni.“

Þorgrímur er þekktur rithöfundur og segir frá því að hann hafi gefið leikmönnum bækur en leikmenn hafi líka gefið honum og fleiri starfsmönnum rándýrt úr árið 2016.

„Ég gaf leikmönnum landsliðsins oft bækur en taldi ekki að neinir aðrir landsliðshópar væru hlunnfarnir. Og leikmenn landsliðsins gáfu mér og fleiri starfsmönnum rándýrt úr árið 2016.“

Meira:
Ása Regins segir fólkið í Laugardal aldrei þakka fyrir: Sími Emils hætti að hringja – „Mögulega einhverjum sérstaklega útvöldum“

„Það get ég staðfest, hafandi unnið með landsliðinu í fótbolta í 14 ár, að starfsfólk KSÍ leggur sig 100% fram daglega og miklu meira en það. Mistök geta átt sér stað þegar fólk er undir álagi. Við gerum öll mistök og vissulega má samræma eitt og annað, eftir ábendingar. Skrifstofa KSÍ er undirmönnuð, það vita þeir sem vilja, og starfsfólkið er undir gríðarlegu álagi alla daga. Þegar ég sat fundi ár eftir ár með fulltrúum annarra knattspyrnusambanda þá göptu fulltrúarnir þegar starfsmannafjöldi KSÍ var nefndur. Í ljósi umsvifanna og árangursins þyrfti líklega að bæta við tíu starfsmönnum á skrifstofunni, ef ekki fleirum. Það kæmi mér ekki á óvart þótt stutt sé í að einhverjir bugist og yfirgefi svæðið.“

Kroppað í starfsfólkið:

Þorgrímur segir að starfsfólk KSÍ fái það óþvegið en eigi það ekki skilið.

„Sífellt fleiri kroppa í KSÍ og starfsfólkið getur ekki borið hendur fyrir höfuð sér en situr undir ásökunum. Auðvitað eiga formaður og framkvæmdastjóri að svara fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi og það er misvel gert en starfsmenn líða fyrir álagið og ásakanirnar.“

„Gerir almenningur sér grein fyrir því að vel yfir 100 manns vinna í sjálfboðavinnu fyrir KSÍ í allskyns nefndum? Og málefnin eru mörg eins og dæmin sanna. Það er ekki slegist um að vera í sjálfboðavinnu í dag því flestir spyrja, hvað fæ ég í staðinn? Ætlar enginn að þakka mér fyrir vel unnin störf. Jú, það skiptir máli að fá klapp á bakið,“ skrifar Þorgrímur og þakkar starfsfólki KSÍ fyrir.

„Ég ætla að nota tækifærið og þakka mínum nánustu samstarfsmönnum, þau 14 ár sem ég var í kringum landsliðið. Samtakamátturinn, gleðin, húmorinn, metnaðurinn, fagmennskan, fíflaskapurinn og hamingjan var einstök. En jú, við gerðum mistök eins og aðrir. Og það verða alltaf gerð mistök.“

„Takk fyrir fagmennskuna starfsmenn; Dagur, Ómar, Gunni Gylfi, Siggi Dúlla, Kiddi, Klara, Ómar, Óskar, Ragnheiður, Margrét, Guðni, Geir, Víðir, Einsi kaldi, Þorvaldur, Hinni, Óli Jó, Pétur Péturs, Lars, Heimir, Freysi, Gummi Hreiðars, Sebastina, Erik Hamrén, Helgi Kolviðs, Jóhann, Magnús, Arnar, Eiður, Halldór. Friðrik, Stefán, Rúnar, Pétur, Sveinbjörn, Haukur læknar og sjúkraþjálfarar. Að ógleymdum landsliðsnefndarmönnum og leikmönnum. Ég man ekki eftir öllum í augnablikinu.“

Þorgrímur segir þetta fólk hafa unnið mörg góðverk.

„Góðverkin sem þetta fólk hefur gert eru óteljandi og hafa sem betur fer ekki ratað í fjölmiðla. Þið eruð öll dásamleg. Ég endurtek að við gerum öll mistök, oft og mörgum sinnum en án þeirra værum við hvorki að þróast né þroskast. Við getum alltaf gert betur. Jákvæðar ábendingar skipta máli. Samfélagið í dag er að mörgu leyti súrt. Það er eins og fólk séu sífellt að leita uppi mistök annarra til að geta blásið í herlúðra. Hverjum þjónar það?,“ skrifar Þorgrímur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Gylfi brattur eftir sigur á uppeldisfélaginu – „Auðvelt að setja það til hliðar“

Gylfi brattur eftir sigur á uppeldisfélaginu – „Auðvelt að setja það til hliðar“
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Sjáðu umræðurnar sem sköpuðust hér á landi í kvöld – „Greindarskerti maður“

Sjáðu umræðurnar sem sköpuðust hér á landi í kvöld – „Greindarskerti maður“
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð