fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
433Sport

Jón Þór tjáði sig um það sem var á allra vörum í haust – „Maður keyrði heim og áttaði sig á að það hafi verið mistök“

Helgi Sigurðsson
Þriðjudaginn 8. nóvember 2022 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þór Hauksson, þjálfari karlaliðs ÍA, er gestur í nýjasta þætti 433.is, sem sýndur er á Hringbraut alla mánudaga. Hann fer yfir tímabil Skagamanna, sem féllu úr Bestu deildinni á dögunum og verða því í næstefstu deild að ári.

Jón Þór tók við ÍA fyrir tímabilið. Hann segir að nú þurfi félagið að fara í ákveðna naflaskoðun.

„Við svona tímamót er ýmislegt skoðað. Aðdragandinn að þessu er langur og lengri en bara þetta tímabil sýnir. Þetta er því miður staðreynd á Akranesi að þetta er ákveðið mynstur sem er að verða til á þessari öld og við þurfum að koma okkur út úr því. Ég er borinn og barnfæddur Skagamaður og hafði haft sterkar skoðanir á hlutunum og fylgst vel með. Maður hefur vitað þessa þróun og það er mitt markmið að koma félaginu út úr þessum slæmu og djúpu hjólförum.“

video
play-sharp-fill

Hann viðurkennir þó að það séu vonbrigði að falla úr deildinni miðað við aðdraganda mótsins.

„Við töldum okkur vera með lið sem gæti haldið sæti sínu í deildinni og jafnvel gert betur en það. Fyrir mót leit þetta ágætlega út og liðið var á ágætis róli á undirbúningstímabilinu.“

Áföllin dundu á liðinu

ÍA lenti í ýmsum áföllum í sumar hvað varðar meiðsli og fleira. Framherji liðsins, Viktor Jónsson, var til að mynda meiddur nánast allt tímabilið.

„Við áttum í miklu basli með stöðugleika í sumar. Án þess að hafa skoðað það sérstaklega vorum við mjög sjaldan með sömu varnarlínu tvo leiki í röð. Ég held við höfum aldrei náð því fyrr en undir lok venjulegs Íslandsmót og ekki í úrslitakeppninni.

Fjarvera Viktors var gríðarlega erfið og erfiðari en margir gera sér grein fyrir. Í þeim leikjum sem hann byrjaði í sumar erum við með tvö stig að meðaltali. Hann gerir leikmenn í kringum sig betri og tengir sóknarleikinn okkar vel saman, þannig leikmenn komist í betri stöðu í okkar sóknarleik, fyrir utan mörkin sem hann skorar.“

ÍA saknaði Viktors sárt. YouTube/SkagaTV

Hinn tvítugi Eyþór Wöhler steig upp í fjarveru Viktors og skoraði níu mörk í 25 leikjum í Bestu deildinni.

„Eyþór stóð sig virkilega vel en ég get ekki sagt að hann hafi fyllt skarðið hans Viktors. Svona er fótboltinn. Hér sitjum við og vælum og skælum, grátum það sem hefði getað orðið, en þetta var of stór biti fyrir okkur.“

Jón Þór segir það í raun magnað að ÍA hafi ekki sogast í fallsæti fyrr á mótinu en raun bar vitni.

„Að við skildum ekki hafa farið í fallsæti fyrr en í tólftu umferð er eiginlega ótrúleg atburðarás vegna þess að við áttum alveg hræðilegan maí. Byrjunin á mótinu var virkilega góð og það kemur í kjölfarið á góðu undirbúningstímabili,“ segir Jón Þór, en ÍA náði í fjögur stig gegn Stjörnunni og Víkingi í fyrstu tveimur leikjum sínum.

„Svo kemur þriðji leikurinn á móti Fram og þar byrja hörmungarnar. Við missum Oliver (Stefánsson) daginn fyrir leik í veikindi, Steinar Þorsteinsson og svo heldur þetta bara áfram út maí. Við lendum í einhverri veikindahrynu. Svo náðu þessir leikmenn sér í raun ekkert á strik fyrr en í landsleikjahléinu. Ástandið á liðinu á tímapunkti var ótrúlegt.“

Skilur umræðuna

Það var gott fyrir ÍA þegar loks kom að landsleikjahléi.

„Það var mjög kærkomið til að hlaða batteríin og það varð raunin. Við nýtum það frí gríðarlega vel og komum inn af miklum krafti eftir það. Við eigum sennilega okkar besta leik gegn KR eftir fríið og vorum bjartsýnir á að ná þeirri þróun og stöðugleika sem við vorum að stefna að. En svo hélt þetta bara áfram.“

ÍA féll á markatölu í haust. Liðið var gagnrýnt fyrir að sækja ekki meira til sigurs gegn Leikni í þriðju síðustu umferð, en þeim leik lauk með jafntefli.

„Það var mjög eðlileg umræða. Við veltum því fyrir okkur að fara í þriggja manna vörn og fjölga í sóknarleiknum. Maður hefur reynt áður að fækka í vörninni og kasta öllum fram og það einhvern veginn tekur taktinn úr, að menn séu í svolítinn tíma að finna taktinn í nýju leikkerfi í miðjum leik. Mér fannst á þessum tíma að við værum að skapa næg tækifæri og ekki ástæða til að henda öllu frá okkur og eiga á hættu að taka allan taktinn út. En eins og leikurinn þróast deyr hann svolítið út og umræðan á rétt á sér. Maður keyrði heim og áttaði sig á að það hafi verið mistök að hafa ekki gert það,“ segir Jón Þór.

Frá leik á tímabilinu. Mynd/Ernir Eyjólfsson

Hann segir að ÍA eigi að gera betur en raun ber vitni ef horft er í aðstöðuna hjá félaginu.

„Í raun og veru er aðstaðan einstök. Þú ert með allt á sama svæðinu. Það sem leikmaður þarf er allt á sama stað. Það eru ekkert mörg lið á Íslandi, ef eitthvað, sem hefur svona óheftan aðgang að svona höll. Það eru margir þættir þar sem við eigum að vera í fremstu röð hvað varðar fótbolta á Íslandi.“

Þarf að byggja upp á heimamönnum

Jón Þór segir að búa þurfi til öflugri liðsheild hjá ÍA og slípa saman lið sem spilar reglulega saman.

„Það er búin að vera gríðarlega mikil leikmannavelta á Skaganum undanfarin ár. Leikmenn hafa ekki spilað mikið saman, mjög fáir í núvernandi hópi hafa spilað tvö tímabil eða fleiri saman. Liðsheildin er ekki eins og við viljum hafa hana og við þurfum að efla hana.“

Hann telur rétt að byggja liðið upp á heimamönnum.

„Ég hef aldrei séð neitt annað virka fyrir ÍA. Við erum búnir að fara ýmsar leiðir og vitum hvað það er sem hefur ekki virkað fyrir okkur. Þróunin á íslenskri knattspyrnu, peningalega erum við ekki samkeppnishæfir. Eins og staðan er í dag er það sú stefna sem virkar best fyrir okkur. Ég tel okkur geta teflt fram mjög öflugu liði skipað heimamönnum.“

Sem fyrr segir mun ÍA spila í Lengjudeildinni að ári, þar sem stefnan verður sett upp í efstu deild á ný.

„Það er langur tími í það að sú keppni hefjist og of snemmt að spá í spilin. En ÍA á að vera í efstu deild og markmiðið er að fara þangað aftur sem allra fyrst. Núna þurfum við að nýta tímann, greina félagið og hvernig við ætlum að gera það, hvaðan við erum að koma og hvert við ætlum að fara, ekki bara til að komast upp úr Lengjudeildinni heldur til að byggja framtíðarplan svo við komumst upp úr þessum hjólförum.“

video
play-sharp-fill
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

United gæti notað Greenwood upp í kaup á leikmanni Juventus

United gæti notað Greenwood upp í kaup á leikmanni Juventus
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Ríkharð svaraði kallinu – Sjáðu gjörbreytt útlit hans

Ríkharð svaraði kallinu – Sjáðu gjörbreytt útlit hans
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Ekki komið til tals að reka Sean Dyche

Ekki komið til tals að reka Sean Dyche
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
433Sport
Í gær

Telur að Salah sé fyrir löngu búinn að semja við annað lið en Liverpool

Telur að Salah sé fyrir löngu búinn að semja við annað lið en Liverpool
433Sport
Í gær

Ótrúleg myndbönd birtast – Stútuðu knæpu eftir gleðitíðindin og einn girti niðrum sig í miðri ræðu

Ótrúleg myndbönd birtast – Stútuðu knæpu eftir gleðitíðindin og einn girti niðrum sig í miðri ræðu
Hide picture