Írönsk yfirvöld eru sögð hafa hótað fótboltalandsliði sínu og fjölskyldum leikmanna fyrir leikinn gegn Bandaríkjunum á Heimsmeistaramótinu í Katar í kvöld.
Mótmælaalda hefur verið í Íran undanfarið í kjölfar þess að hin 22 ára gamla Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglu þar í landi.
Leikmenn íranska liðsins hafa stutt mótmælin og fyrir leikinn gegn Englandi í fyrstu umferð riðlakeppni HM sungu þeir til að mynda ekki með þjóðsöngnum.
Í gær sagði CNN frá því að fjölskyldum írönsku leikmannanna hafi verið hótað með fangelsisdóm og pyntingum ef leikmenn haga sér ekki fyrir leikinn gegn Bandaríkjunum.
Íran á enn séns á að komast áfram fyrir lokaleik riðlakeppninnar gegn Bandaríkjunm. Liðið er í öðru sæti B-riðils með þrjú stig, stigi á eftir Englandi.
Bandaríkin eru í þriðja sæti með tvö stig og Wales í því neðsta með eitt.