Eiður Smári Guðjohnsen steig til hliðar í gær sem þjálfari FH af persónulegum ástæðum eftir að fréttir höfðu borist af því að hann hefði verið stöðvaður af lögreglu, grunaður um ölvunarakstur. Þá sagðist RÚV hafa heimildir fyrir því að Eiður Smári hafi ekið bílinn án þess að hafa til þess ökuréttindi. Þá er ekki loku fyrir það skotað að Eiður Smári snúi aftur í þjálfarastólin hjá FH takist honum að vinna í sínum málum.
Rætt var um málið í hlaðvarpsþættinum Dr.Football þar sem þeir Hjörvar Hafliðason, umsjónarmaður þáttarins og Hrafnkell Freyr Ágústsson og Albert Brynjar Ingason ræddu málin.
„Hann hefur beðið um svigrúm til að vinna í sínum málum. Hvað er hægt að segja meira við því?“ spurði Hjörvar Hafliðason.
„Þá vonar maður bara að hann vinni í sínum málum og mæti tvíefldur til baka,“svaraði Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur þáttarins. FH gefur honum tækifæri til þess og ég vona að það gerist því Eiður Smári á heima úti á velli að þjálfa. Þá vonar maður líka að það sé mikill metnaður á bakvið það hjá honum því ég held að hann geti orðið frábær þjálfari ef hann leggur vinnu í það.“
„Maður er ekki að fara sitja hérna og sparka í liggjandi mann,“ sagði Albert Brynjar Ingason, annars sérfræðingur Dr. Football. „Vonandi að hann sé að fara í þessa meðferð á þeim forsendum að hann vilji hana sjálfur, ekki bara af því að einhverjir aðrir eru að segja honum að gera það.“
Hjörvar sagði þetta ekki beint tímann til þess að vera sparka í fólk. „Vonandi að hann finni bót meina sinna. Þetta er auðvitað bara fyrst og fremst leiðinlegt.
Eiður Smári er auðvitað einn besti íþróttamaðurinn í sögu íslensku þjóðarinnar og við þurfum ekkert að rifja upp hvað hann hefur afrekað á knattspyrnuvellinum. Nú er hann að hefja nýja baráttu og það er ekki hægt að gera neitt annað en að óska honum alls hins besta.“