Franck Ribbery er að leggja skóna á hilluna sökum meiðsla á hné. Fjölmiðlar í heimalandi hans, Frakklandi, segja frá þessu.
Hinn 39 ára gamli Ribery er samningsbundinn Salernitana út leiktíðina og ætlaði að spila út hana hið minnsta. Meiðsli munu hins vegar að öllum líkindum neyða hann til að leggja skóna á hilluna nú.
Ribery hefur verið frá knattspyrnuvellinum frá því um miðjan ágúst. Lið hans, Salernitana, er í fjórtanda sæti Serie A á Ítalíu, með sjö stig eftir átta leiki. Liðið hélt sér uppi á magnaðan hátt á síðustu leitkíð.
Leikmannasamningi Ribery við Salernitana verður nú rift. Hann mun taka að sér sendiherrahlutverk hjá liðinu núna.
Ribery er hvað þekktastur fyrir tíma sinn hjá Bayern, þar sem hann eyddi tólf árum. Hann varð níu sinnum Þýskalandsmeistari, sex sinnum bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari. Ribery skoraði 124 mörk fyrir þýska risann.
Þá lék franski kantmaðurinn 81 A-landsleik fyrir hönd Frakklands, þar sem hann skoraði sextán mörk.