Mark Clattenburg, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, segir að fólk þurfi að læra að lifa með myndbandsdómgæslu, VAR.
Myndbandsdómgæsla ruddi sér rúms í fótboltanum í Evrópu fyrir um fjórum árum síðan og þykir afar umdeild.
„Ég held að fólk þurfi að venjast því hvernig myndbandsdómgæslan er. Ef við horfum aftur í tímann vildu allir fá tæknina inn í fótboltann, til að aðstoða dómarann,“ segir Clattenburg.
„Þetta hefur fært okkur fleiri mörk upp úr hornspyrnum og aukaspyrnum, af því það er minna um peysutog inni í teig.
Þetta hefur sína kosti. Til dæmis hafa ákvarðanir um rangstöður lagast.“
Clattenburg segir að eðlilegt sé að fólk sé pirrað yfir óstöðugleika myndbandsdómgæslunnar.
„Ég held að fólk sé pirrað yfir óstöðugleikanum. Fólk þarf að muna að það er manneskja að sjá um tæknina. Það er ekki tæknin sem leysir öll vandamálin. Við erum enn með mannlega þáttinn og mannleg mistök.
Ég held við munum sætta okkur við þetta á næstu árum. Ég held að þetta verði ásættanlegra.“