Naby Keita liggur ekki á að skrifa undir nýjan samning við Liverpool.
Samningur miðjumannsins við félagið rennur út næsta sumar. Liverpool hefur áhuga á að endursemja við hann.
Samkvæmt íþróttafréttamanninum Christian Falk vill Keita hins vegar bíða þar til í janúar.
Hinn 27 ára gamli Keita hefur verið á mála hjá Liverpool síðan 2018. Hann kom frá RB Leipzig í Þýskalandi.
Það var búist við miklu af Keita en hann hefur hins vegar ekki alveg staðið undir væntingum.
Þrátt fyrir það vill Liverpool halda honum innan sinna raða og bjóða honum nýjan samning.