Eiður Smári Guðjohnsen hefur stigið til hliðar sem þjálfari FH. Frá þessu greinir félagið í yfirlýsingu sinni. Fram kemur að Eiður gæti snúið aftur til starfa ef sú sjálfsvinna sem hann ætlar í tekst vel.
Allir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að til skoðunnar væri að reka Eið Smára úr starfi hjá FH. Ástæðan er sú að á þriðjudag var hann stöðvaður af lögreglu, grunaður um ölvunarakstur.
FH mætti ÍBV á útivelli í Bestu deildinni í gær þar sem liðið tapaði. Liðið situr í fallsæti þegar fjórir leikir eru eftir í deildinni og mætir Leikni á sunnudag.
Sigurvin Ólafsson sem var aðstoðarmaður Eiðs Smára tekur til að byrja með við þjálfun liðsins samkvæmt heimildum 433.is.
Eiður tók við þjálfun liðsins í júní en hefur ekki tekist að snúa við gengi liðsins. Honum var vikið úr starfi hjá KSÍ á síðasta ári vegna persónulegra málefna. „Eiður Smári biður um svigrúm til að vinna í sínum málum og báðir aðilar vonast eftir því að sú vinna verði árangursrík og að Eiður Smári snúi aftur í þjálfarateymi FH í náinni framtíð,“ segir í yfirlýsingu FH.
Eiður er einn besti knattspyrnumaður í sögu Íslands en hann lék á ferli sínum með Barcelona, Chelsea og fleiri liðum.
Yfirlýsing FH:
Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari meistarflokks karla, hefur ákveðið í samráði við stjórn knattspyrnudeildar FH að stíga til hliðar af persónulegum ástæðum.
Eiður Smári biður um svigrúm til að vinna í sínum málum og báðir aðilar vonast eftir því að sú vinna verði árangursrík og að Eiður Smári snúi aftur í þjálfarateymi FH í náinni framtíð.