Það kemur í ljós á morgun hvort íslenska kvennalandsliðið mæti Portúgal eða Belgíu í leik um sæti á HM á næsta ári. Íslenska liðið æfir á Algarve í Portúgal, þar sem það undirbýr sig fyrir leikinn.
Portúgal og Belgía leika annað kvöld. Sigurvegarinn mætir Íslandi á heimavelli í umspili um sæti á HM.
Ísland tók fyrstu æfinguna á Algarve í morgun.
„Staðan á hópnum er þokkaleg. Það er smá þreyta eftir álag undanfarið, nokkrir leikmenn að spila í deild og Meistaradeild. Það var nokkuð létt æfing hjá sumum og smá keyrsla hjá öðrum,“ segir Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, við KSÍ TV.
„Við erum að æfa einu sinni á dag, æfum á morgun og föstudag, tökum svo rólegan laugardag.“
Portúgal verður á heimavelli í leiknum gegn Belgíu.
„Davíð Snorri verður í Portúgal, horfir á leikinn þar. Hann kemur svo beint yfir til okkar og leikgreinir leikinn og við förum yfir það á föstudagskvöldið með leikmönnum, sýnum styrkleika og veikleika og að hluta til hvernig við ætlum að gera hlutina.“